Umræða um andlega heilsu snýst oft um vanlíðan og vandamál – að greina það sem er að og finna leiðir til þess að draga úr einkennum vandans, t.d. að draga úr einkennum þunglyndis, kvíða, fælni og svo framvegis. Það á fyllilega rétt á sér en það eitt að draga úr vanlíðan stuðlar ekki sjálfkrafa að því að okkur líði vel og blómstrum í lífinu. Það eru aðrir þættir sem snúa að því að elfa andlega heilsu með því að auka vellíðan og hamingju.

 

Rannsóknir á andlegri vellíðan og hamingju hafa leitt í ljós að jákvæð tengsl eru milli hamingju og ákveðinna eiginleika eins og þakklætis, núvitundar, bjartsýni, góðvildar og sjálfsumhyggju og að þegar við ræktum þessa eiginleika með okkur, getur það aukið andlega vellíðan okkar og sátt með lífið. Rannsóknir hafa einnig leitt í ljós að það að greina helstu styrkleika okkar og finna leiðir til þess að nýta þá í daglegu lífi getur aukið vellíðan og hjálpað okkur að finna fyrir meiri orku og tilgangi. Innan jákvæðrar sálfræði hafa verið þróaðar ýmisskonar aðferðir sem miða að því að kalla fram jákvæðar tilfinningar og hjálpa fólki að rækta með sér eiginleika sem stuðla að aukinni vellíðan. Rannsóknir hafa leitt í ljós að þessar aðferðir virka og leiða til aukinnar vellíðanar óháð því hvernig fólki líður fyrir en margar þeirra hafa líka reynst gagnlegar við að draga úr vanlíðan eða einkennum þunglyndis.  

 

Ráðgjöf á forsendum jákvæðrar sálfræði (e. positive psychology coaching) snýst um að miðla þessum aðferðum til einstaklinga og styðja þá í að nýta sér þessar aðferðir í daglegu lífi. Ráðgjöfin snýst líka um að hjálpa einstaklingum að átta sig á helstu lífsgildum sínum, hvert þeir vilja stefna og ræða mögulegar leiðir til að nálgast það.

Lesa má nánar um ráðgjöfina hér

Um Helgu

Helga hefur mikla ástríðu fyrir andlegri heilsueflingu og að hjálpa fólki að finna leiðir til að bæta líðan sína og lífsgæði. Hún hefur starfað sjálfstætt við ráðgjöf, námskeiðahald og fræðslu um andlega heilsu og leiðir til þess að hlúa að henni síðan haustið 2015. Hún sinnir aðstoðarkennslu í jákvæðri sálfræði við HR og hefur verið gestafyrirlesari um jákvæða sálfræði við EHÍ og við ýmsar deildir HÍ, auk þess að sinna þróun á hamingjuappinu Happ app sem hún er höfundur að. 


Helga er með BA gráðu í sálfræði frá Háskóla Íslands, MSc gráðu í félags- og heilsusálfræði frá Maastricht University og diplomagráðu á mastersstigi í jákvæðri sálfræði frá Endurmenntun Háskóla Íslands.

Hún hefur sótt sér þjálfun í ráðgjöf á forsendum jákvæðrar sálfræði (positive psychology coacing) bæði við EHÍ og Wholebeing Institiute og er með CMA-vottaða núvitundar-kennaraþjálfun (mindfulness teacher training) við Awareness is Freedom. 

 

Lesa má nánar um Helgu og jákvæða sálfræði hér