Að gefnu tilefni viljum við minna á að það er 16 ára aldurstakmark í Sólum (fyrir utan fjölskyldujóga og aðra sérstaklega auglýsta viðburði fyrir ungviðið). 

Undirbúningur fyrir jógaæfingu

Ástundun jóga krefst ekki sérstakra áhalda eða fatnaðar, aðeins rýmis og löngunar til heilbrigðari lífshátta. Samt sem áður eru nokkur atriði sem gott er að hafa í huga áður en farið er af stað, sérstaklega ef þú ert byrjandi. Eftirfarandi eru atriði sem gott er að huga að í upphafi.

 

Jógadýna

Jógadýnur fást í öllum stærðum og gerðum en gott er að huga fyrst og fremst að þykktinni. Því þykkari sem dýnurnar eru því notalegri eru þær til að liggja á, en samt getur þykktin verið til trafala þegar þú stundar jafnvægisæfingar. Dýnurnar eru yfirleitt frá 3-8 mm á þykkt en þær algengustu eru 5-6 mm á þykkt og er það ágætis viðmið. Flestar eru þær með stömu undirlagi sem gerir þær stöðugar á gólfinu. Þegar þú ferð í jógatíma á jógastöðvum eða líkamsræktarstöðvum er í langflestum tilfellum boðið upp á lánsdýnur og á meðan þú sérð hvað hentar þér er ágætt að nýta sér það.

Jógadýnur fást í sérverslunum, í íþróttavöruverslunum, á jógastöðvum og líkamsræktarstöðvum, auk þess sem netið býður upp á gott úrval á hagstæðu verði.

 

Handklæði

Ef eitthvað eitt er ómissandi í heitu jóga þá er það handklæði. Þetta á ekki síst við þegar þú notar lánsdýnu, því alltaf má setja spurningamerki um hreinlæti þeirra frá degi til dags. Til eru fjölmargar gerðir af sérstökum jógahandklæðum og algeng stærð er 60×180 sentímetrar. Mörg þeirra eru með þunnu sílikonmynstri á annarri hliðinni sem gerir þau stöm og þægileg í notkun. Hægt er að fá bæði þunn og þykk handklæði, en aðalatriðið er að efnið sé ekki of gróft því þá getur myndast núningur á álagssvæðum (t.d. á hnjánum og ristunum) ef þú stundar jóga mjög reglulega. Handklæði úr örtrefjaefni geta m.a. verið hentug. Þú getur einnig notað stórt baðhandklæði eða strandhandklæði að heiman. Einnig er hentugt að hafa annað lítið handklæði við höndina til að þurrka svita eða nota sem aukahlut í sumum útfærslum á stöðunum.

Jógahandklæði fást í sérverslunum, í íþróttavöruverslunum, á jógastöðvum og líkamsræktarstöðvum, auk þess sem netið býður upp á gott úrval á hagstæðu verði.

 

Fatnaður

Algengt er að karlmenn séu á stuttbuxum einum klæða og konur í stuttbuxum og topp. Með léttum klæðnaði nærðu að njóta þín betur í hita en mikil klæði og óþarfa hiti vegna þeirra dregur úr getu þinni. Einnig geturðu séð betur hvernig líkaminn vinnur og þar með fengið betri líkamsvitund, auk þess sem jógakennari getur síður leiðrétt mistök sem hann ekki sér. Hérlendis má sjá allar útgáfur af klæðaburði í jóga en gott er að nota ekki bómull heldur teygjanleg efni sem draga ekki í sig mikinn raka. Sokkar gera afar takmarkað gagn og jafnvel ógagn því þeir geta dregið úr jarðtengingu þinni og raskað jafnvæginu.

 

Aukahlutir

Í hefðbundnu Hatha jóga er fátt um aukahluti fyrir utan dýnu og handklæði. Þó eru stundum notaðar svokallaðar blokkir til að draga úr álagi á t.d. bak og hné. Á þessum blokkum má m.a. sitja þegar hugleitt er í Lótusstöðunni, en þegar henni er haldið í langan tíma getur hún reynt mikið á mjóbak og hné. Blokkir eru auk þess notaðar sem framlenging útlima, t.d. fyrir hendur í stöðum á borð við Tástandinn. Speglar eru staðalbúnaður í jógasölum og vel útbúnir salir hafa einnig hliðarspegla. Í sumum tegundum jóga er ekki notast við spegla og þeir huldir.

 

Hitinn

Heitt jóga er kennt í upphituðum sölum þar sem hitastigið getur verið allt að 38–40° samkvæmt viðurkenndum stöðlum. Í flestum sölum eru einnig sérútbúin rakatæki sem auka rakann, en æskilegur raki ætti að vera í kringum 40%. Hitinn og rakinn það að verkum að líkaminn hitnar fyrr upp og sveigjanleiki hans eykst til muna. Þannig verður þú móttækilegri fyrir því að komast dýpra inn í stöður og teygjuæfingar. Hafðu samt hugfast að þótt heitt jóga sé kennt í heitum sal er ekkert því til fyrirstöðu að stunda það við stofuhita.

 

Næring

Það er ágætis viðmiðun að borða ekki síðustu tvær klukkustundirnar fyrir jógaæfingu. Þannig leyfir þú líkamanum að njóta betur virkni æfingarinnar án þess að vera á meltunni á sama tíma. Þú finnur fljótt hvað hentar þér best en flestir gera aðeins einu sinni þau mistök að stunda jóga með fullan maga. Það er alveg vonlaust að glíma við fæðuna sem færist fram og aftur um meltingarveginn í stöðunum með tilheyrandi óþægindum. Ef þú byrjar daginn á jógaæfingu skaltu þó endilega næra þig á léttan hátt þótt þú hafir ekki mikinn tíma. Pressaður ávaxtasafi eða grænmetisafi er góður orkugjafi eða aðrir næringarríkari drykkir. Passaðu upp á að fylla ekki magarýmið um of.

Einn mesti ávinningur þess að stunda jóga að staðaldri er sá að hugurinn og líkaminn leita sífellt í léttara og hreinna fæði og aukna vatnsdrykkju. Það eina sem þú þarft að gera er að vera vakandi fyrir þeim skilaboðum sem kroppurinn sendir þér.

 

Vökvun

Hjá jógaiðkendum er vökvaskortur algengasta ástæðan fyrir miklum svima, ógleði eða jafnvel yfirliði við æfingar. Best er að hafa drukkið vel áður en jógaæfing hefst. Í hitanum og rakanum getur orðið mikið vökvatap, allt upp í nokkra lítra á fullvaxta karlmann, samhliða því að steinefni líkamans gufa upp og mikilvægt er að fylla fjótt aftur á þau. Það er því gríðarlega mikilvægt að vera alltaf vel vökvaður.

Langbesti drykkurinn fyrir jógaiðkendur verður alltaf vatn. Vatn er steinefnaríkt en það tekur líkamann u.þ.b. 15 mínútur að vinna úr hverjum desilítra af vatni. Ef þú hefur þörf fyrir að fylla hraðar á skaltu því heldur leita í kókosvatn, en það er náttúrulegur og svalandi orkugjafi sem er stútfullur af steinefnum og næringarefnum. Leyfðu hinum svokölluðu orkudrykkjum endilega að eiga sig því þeir innihalda oftast fleiri tilbúin óæskileg efni en næringarefni. Sykurinn leynist víða en hann er í besta falli næringarlaus orka.

 

Hreinlæti

Eins og gefur að skilja er hreinlæti mikilvægt í jóga. Í hitanum og rakanum á sér stað mikil uppgufun og losun úrgangsefna; þú getur svitnað mikið og þannig nær húðin einnig að hreinsa sig. Það er því fremur óæskilegt að nota snyrtivörur, ilmvötn og krem í heitu jóga. Það er auk þess fremur óþægilegt að finna fyrir þessum efnum leka um andlit og líkama þegar svitinn byrjar að renna.

Við sýnum sjálfum okkur og öðrum virðingu með því að vera hrein og snyrtileg, sérstaklega þar sem nálægð við náungann er meiri en ella.

 

Tímalengd

Ef þú sækir jógatíma hjá kennara geturðu yfirleitt valið um 60, 75 eða 90 mínútna tíma. Þeir geta verið jafn fjölbreyttir og ólíkir og kennararnir sjálfir. Stuttur tími getur verið jafn krefjandi og langur tími en þetta fer alltaf mest eftir þinni ákefð og framlagi. Mikilvægast er að halda út þann tíma sem þú velur þér, vera inni í salnum allan tímann og leyfa líkamanum að venjast æfingunum í hitanum. Það er verra að fara út úr tímanum, sérstaklega ef þú finnur fyrir ónotum. Komdu frekar í hvíldarstöðuna, haltu kyrru fyrir og slakaðu á. Snögg kæling í miðri æfingu getur aukið einkennin, auk þess sem seríurnar sem kenndar eru hafa heilandi áhrif sem nást ekki fram nema með fullri þátttöku. Þetta á bæði við um byrjendur og lengra komna. Eftir að tíminn hefst njótum við hans saman í þögn, þ.e. bíðum með allt tal þar til að tíma lýkur.