Ágústa Edda Björnsdóttir

Ágústa er ein sigursælasta hjólreiðakona á Íslandi 2016-2018.  Á síðasta ári keppti hún með landsliðinu á Smáþjóðaleikunum í San Marínó og var um haustið valin hjólreiðakona ársins. Ágústa er mikill reynslubolti þegar kemur að æfingum og þjálfun en hún var í handboltalandsliðinu í 13 ár frá árunum 1997-2010. Hún var valin handboltakona ársins árið 2006 og hefur þjálfað unga sem aldna undanfarin ár.

Ágústa hefur verið dugleg að sækja sér þekkingu og fræðslu um allt sem tengist þjálfun enda mikil áhugamanneskja um allt er varðar æfingar, mataræði, hvíld og endurheimt. Ágústa hefur sigrað þrjár af fyrstu fjórum keppnum sumarsins 2018 og er í landsliði Íslands.

Eyjólfur Guðgeirsson

Eyjó, eins og hann er kallaður, kom inn í hjólreiðaheiminn með miklum látum eftir að hafa smitast af hjólabakteríunni í Wow Cyclothon. Hann náði góðum árangri sumarið 2017, þrátt fyrir að hafa aðeins æft markvisst í nokkra mánuði. Hann æfði stíft veturinn á eftir og tók að auki að sér þjálfun þar sem hann naut sín vel.

Hjólasumarið 2018 hefur byrjað vel hjá Eyjó en hann hefur verið í baráttunni um verðlaunasæti í öllum keppnum og var nýverið valinn í úrtakshóp hjólreiðalandsliðsins. Eyjó er með góðan grunn úr Crossfit og getur miðlað af reynslu sinni þegar kemur að styrktaræfingum hjólreiðamanna.

Karen Axelsdóttir

Karen Axelsdóttir er ein sigursælasta þríþrautarkona og hjólreiðakona sem Ísland hefur átt og hefur hampað fjölda titla, bæði erlendis og hérlendis. Hún er núverandi Íslandsmethafi í ólympískri vegalend og Ironman sem hún fór á tímanum 9 klst .24 mín (hljóp maraþon á 3 klst .11 mín eftir 180 km hjól og 3,8 km sund), þannig að hún er ýmsu vön þegar kemur að stuttum eða löngum vegalengdum. Hennar stærsti sigur var þó ekki endilega íþróttalegs eðlis en 2013 lenti hún í alvarlegu slysi og bjóst ekki við að stíga aftur á hjól eða reima á sig hlaupaskó. Karen hefur náð ótrúlegum bata eftir 4 ára baráttu og var í sigurliði kvenna í Wow cyclothon 2017.

Karen er viðskiptafræðingur frá HÍ og Msc í starfsmannstjórnun frá London School of Economics. Hún hefur þjálfað frá 2005 og er með einkaþjálfunarpróf frá ACE sem og þríþrautarréttindi frá British Triahthlon Association.

Lilja Birgisdóttir

Lilja byrjaði að hjóla árið 2012 þegar hún ásamt níu öðrum stelpum ákvað að taka þátt í hálfum járnkarli. Árið 2014 varð Lilja fyrst kvenna formaður hjólreiðafélagsins Tinds. Síðan hefur hún átt stóran þátt í því að byggja upp hjólamenningu á Íslandi, bæði hvað snýr að mótum og forvörnum, ásamt þeirri miklu aukningu sem orðið hefur meðal kvenna í sportinu en á það hefur hún lagt sérstaka áherslu með ýmsum námskeiðum og viðburðum. Lilja einblínir á að nota hjólreiðar til þess að ná fram því besta í sjálfri sér, bæði andlega og líkamlega.

Lilja er viðskiptafræðingur frá HR. Hún hefur lokið námskeiði í Coaching Clinic og einnig sem leiðbeinandi hjá Dale Carnegie.