• Sólir stækka :: Aðalheiður Magnúsdóttir nýr fjárfestir

  Sólir stækka :: Aðalheiður Magnúsdóttir nýr fjárfestir

  2. janúar, 2018

  Breyting varð á eignarhaldi Sóla, jóga- og heilsuseturs, skömmu fyrir áramót en nýr fjárfestir í fyrirtækinu er Aðalheiður Magnúsdóttir, hönnuður, jógakennari og eigandi Ásmundarsalar. Sólir voru stofnaðar af Sólveigu Þórarinsdóttur, viðskiptafræðingi og jógakennara, vorið 2015 og er fyrirtækið nú í eigu þessara tveggja athafnakvenna sem deila sömu hugsjón um heilsueflingu, byggða á jógaiðkun.

  Aðsókn að Sólum, sem eru til húsa að Fiskislóð 53-55 á Granda, hefur vaxið jafnt og þétt allt frá byrjun. Undir lok síðasta árs var ráðist í viðamiklar endurbætur á húsnæði jógastöðvarinnar til að mæta aukinni eftirspurn og voru stærri og enn glæsilegri Sólir opnaðar við upphaf nýs árs 2018. Um leið skapast svigrúm til að bjóða nýja viðskiptavini velkomna en fyrir stækkun var jógastöðin komin að þolmörkum þar að lútandi.

  Sólir státa nú m.a. af þremur fullkomnum jógasölum, þar af tveimur sérútbúnum fyrir heitt jóga, séraðstöðu fyrir nudd, nálastungur og heilsuráðgjöf, nýrri jógaverslun og nýjum og notalegri búningsklefum, ásamt köldum og heitum böðum.

  Markmið Sóla hefur allt frá byrjun verið að bjóða upp á einstaka jógaupplifun með fjölbreyttri stundaskrá, námskeiðum og viðburðum af ýmsu tagi og með stækkun jógastöðvarinnar, fullkomnari aðstöðu og fjölþættari þjónustu, er stigið enn eitt skrefið í þá átt.